Snickers baka með kókos karamellum

Í þessa snickersböku notaði ég vegan karamellur sem eru framleiddar úr kókosmjólk. Karamellunar eru alveg hrikalega góðar og algjörlega nýja uppáhaldið mitt! Ekki er verra að þær eru lífrænar, innihalda ekki GMO, innihalda ekki glútein og eru gerðar algjörlega án mjólkurafurða!

Snickers baka með kókos karamellum:

 • 2 dl möndlumjöl frá Bob’s Red Mill
 • 2,5 dl hveiti
 • 2 msk lífrænn púðursykur
 • ¼ tsk salt
 • 115 g kalt smjör, skorið í litla bita
 • 3 msk ískalt vatn
 • 2 pokar Cocomels karamellur
 • 2 dl salt hnetur
 • 200 g súkkulaði
 • 2 msk hnetusmjör

Aðferð:

 1. Kveikið á ofninum og stillið á undir+yfir hita 180°C.
 2. Í skal blandið saman möndlumjöli, hveiti, púðursykri og salti.
 3. Setjið svo smjörið út í og hnoðið saman við þangað til áferðin verður eins og af blautum sandi. Bætið við vatni þangað til deigið límist saman.
 4. Smyrjið 20 cm bökuform og þrýstið deiginu ofan í, gatið það með gafli út um allt til þess að það myndist ekki loftbólur í því. Bakið í 18-20 mín.
 5. Bræðið kókos karamellurnar í potti eða í örbylgju en passið að þær sjóði ekki (ef þær sjóða þá verður karamellan alltof hörð þegar hún stirnar aftur) og blandið salt hnetunum saman við. Hellið karamellunni í bökuna.
 6. Bræðið saman súkkulaðið og hnetusmjörið yfir vatnsbaði, hellið súkkulaðinu yfir karamelluna í bökunni. Kælið í ísskáp í um það bil 2 tíma eða þangað til súkkulaðið hefur storknað. Skreytið kökuna að vild.

Njótið vel!

Ykkar, Linda Ben

Öll hráefni sem fjallað er um í þessari færslu fást í Kosti